Ólafur á Söndum í tali og tónum

Ólafur á Söndum í tali og tónum 13.09.2014
Kvæðabók Ólafs Jónssonar á Söndum (um 1560-1627). Ljósmyndari: Jóhanna Ólafsdóttir

Ólafur á Söndum í tali og tónum
Þingeyri við Dýrafjörð
13. september 2014

Laugardaginn 13. september nk. verður haldin ráðstefna á Þingeyri við Dýrafjörð undir yfirskriftinni Sr. Ólafur Jónsson á Söndum í tali og tónum. Ráðstefnan verður í félagsheimilinu og hefst kl. 11 fyrir hádegi. Sex fræðimenn flytja erindi um kveðskap sr. Ólafs og tónlistina við hann. Sönghópur frá Þingeyri flytur nokkur lög eftir skáldið og leikfélagið Höfrungur setur upp stuttan leikþátt.

Ráðstefnan er á vegum Safns Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri og prófessorsembættis Jóns Sigurðssonar við Háskóla Íslands í samvinnu við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Þingeyrarkirkju, íþróttafélagið Höfrung á Þingeyri, Skjalasafn Vestfjarða og Byggðasafn Vestfjarða.

Séra Ólafur Jónsson (um 1560–1627) á Söndum í Dýrafirði var eitt af höfuðskáldum Íslendinga á fyrri hluta 17. aldar. Hann safnaði kvæðum sínum saman í eitt handrit, sem var skrifað upp mörgum sinnum eftir hans tíð. Nú á dögum er vitað um 25 eftirrit kvæðabókar Ólafs en eiginhandarrit hans er þó glatað. Við mörg af kvæðum Ólafs eru settar nótur og er talið að hann hafi jafnvel samið sum lögin sjálfur. Allir eru velkomnir. Sjá nánar á heimasíðu Safns Jóns Sigurðssonar www.hrafnseyri.is.

 

 

Að finna sér stað í veröldinni

Að finna sér stað í veröldinni

Ísland í Danaveldi og norðurslóðir sem nýr heimshluti

9. maí kl 15:00 til 16:45 og 10. maí kl 10:00 til 18:00 í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins

Á málþinginu fjalla fræðimenn frá Íslandi og Danmörku um stöðu Íslands á norðurslóðum frá menningarsögulegu sjónarhorni. Fjallað verður um stöðu landsins í sögu og samtíð í ljósi sjónarmiða sem kenna má við eftirlendur, dullendur og nýlendur. Sjónarmiðin verða könnuð í samhengi við áhrif þjóðernishyggju á söguskoðun og skilning á innbyrðis tengslum landanna við norðanvert Atlantshaf. Málþingið er tengt norræna rannsóknarverkefninu „Denmark and the New North Atlantic“ þar sem stefnt er saman fræðimönnum frá háskólum í Norður Evrópu til rannsókna á þeim menningar- og sögulegu tengingum sem mótað hafa þjóðarsögur Íslands, Grænlands, Færeyja, Noregs og Danmerkur. Á þessu málþingi taka til máls þátttakendur í rannsóknarverkefninu ásamt fleiri leiðandi fræðimönnum á rannsóknarsviðinu. Málþingið fer fram á ensku. Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.

Aðalfyrirlesarar: Uffe Østergaard, Kirsten Thisted og Guðmundur Hálfdanarson

Sjá heildardagskrá málþingsins hér

Málþingið er haldið í samstarfi Prófessorsembættis Jóns Sigurðssonar, Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands/CAPS, Eddu – öndvegisseturs, Þjóðminjasafns Íslands og rannsóknarverkefnisins Denmark and the New North-Atlantic.

 

Fyrirlestur 8. nóvember 2013:

Háskólasetur Vestfjarða: „Ber okkur aldrei að víkja”
„Ber okkur aldrei að víkja? Jón Sigurðsson og samtíminn“ er yfirskrift Vísindaports Háskólaseturs Vestfjarða föstudaginn 8. nóvember 2013. Það er Guðmundur Hálfdánarson prófessor sem flytur erindið. Í erindinu mun Guðmundur leggja útfrá kjörorðum sem oft eru tengd nafni Jóns Sigurðssonar („Aldrei að víkja“), og fjalla í stuttu máli um pólitíska hernaðarlist Jóns Sigurðssonar og hvað megi læra af henni á okkar tímum.
Vísindaport hefst klukkan 12:10 í kaffistofu Háskólaseturs. Allir velkomnir.

Í byrjun tveggja alda

Stofnun Rögnvaldar Á Ólafssonar ásamt samstarfsaðilum boðar til ráðstefnu í haustbyrjun 2013:

Í byrjun tveggja alda: hugsjónir aldamótakynslóðarinnar bornar saman við samtímann og þá framtíðarsýn sem við okkur blasir
Hvar stöndum við nú hvað varðar umhverfis- og samfélagsmótun og í hvað stefnir?
Hvað getum við lært af þeirri hugmyndafræði og þeim aðferðum sem beitt var í byrjun síðustu aldar?
Ráðstefnan fer fram á Hrafnseyri í Arnarfirði, á fæðingarstað Rögnvaldar að Núpi í Dýrafirði og í Edinborgarhúsinu á Ísafirði 6. og 7. september 2013.
Dagskráin samanstendur af fyrirlestrum, stuttum kynningum, pallborðsumræðum og samræðuhópum.  Hún er hugsuð fyrir fagfólk jafnt sem almenning og verður lögð áhersla á að þátttakendur nái að hittast og ræða saman utan dagskrár með því m.a. að taka þátt í skoðunarferðum og hátíðardagskrá að Núpi.
„Stemmningin‟ var með tvennum hætti í byrjun þessara tveggja alda.  Um aldamótin 1900 voru tækninýjungar að ryðja sér til rúms, svo virtist sem auðlindir væru óþrjótandi og helstu viðfangsefnin fólust í því að þróa tækni til að nýta þær.  Miklir hugsjónamenn leituðust við að hanna umhverfi og þróa nýjungar sem gætu nýst sem flestum, stórvirki voru unnin með hagsmuni fjöldans í huga.
Nú eitt hundrað árum síðar fleygir tækninni hratt fram en flestar auðlindir jarðar eru í hættu.  Hvað er til ráða?  Getum við lært eitthvað af því fólki sem vann af mikilli hugsjón og bjartsýni í byrjun síðustu aldar?
Leitast verður við að fanga stemmninguna nú á tímum og bera saman við andrúmsloft og viðhorf sem réðu ríkjum hjá aldamótakynslóðinni. „Í skjóli‟ hógværa meistarans Rögnvaldar, verður manngert umhverfi á okkar norðlægu slóðum skoðað og skilgreint í samtíð og nálægri fortíð og gerð tilraun til að leggja drög að endurskoðaðri framtíðarsýn.
Fyrri ráðstefnudaginn verður fjallað um hvað var í gangi á Íslandi í byrjun 20. aldar, hvaða hugmyndafræði réði ríkjum við umhverfismótun, hvaðan fyrirmyndirnar komu og hvaða viðfangsefni og áherslur var verið að vinna með.  Tekin verða dæmi úr verkum Rögnvaldar og mótunarferli vestfirskra bæja og byggða. Seinni ráðstefnudaginn verður megináhersla lögð á hvar við stöndum í byrjun 21. aldarinnar, hvernig þessi mál hafa þróast á Íslandi og hvaða hugmyndafræði ræður ferðinni nú.  Reynt verður að bera saman þessi tvö tímabil og skilgreina hvernig þau eru ólík og hvað þau eiga sameiginlegt og hvaða lærdóm má draga af viðhorfum og vinnubrögðum  „aldamótakynslóðarinnar‟ við mótun nýrrar framtíðarsýnar.
Fyrirlesarar og samræðustjórar verða m.a. arkitektar, heimspekingar, mannfræðingar, sagnfræðingar, rithöfundar og samfélagsrýnar. Vonast er til að sem flestir sem vinna að umhverfismótun og aðrir þeir sem láta sig umhverfið varða sjái sér fært að taka þátt í ráðstefnunni. Frekari upplýsingar um dagskrá og skráningu má finna á kynningarsíðu ráðstefnunnar www.facebook.com/ibyrjuntveggjaalda.  Einnig má senda fyrirspurn á netfangið inni@snerpa.is eða hringja í síma 868 1845.

Guðmundur Hálfdanarson skipaður í prófessorsstöðu Jóns Sigurðssonar

Guðmundur Hálfdanarson sagnfræðingur hefur verið skipaður í prófessorsstöðu við Háskóla Íslands sem tengd er nafni Jóns Sigurðssonar. Hann tók við stöðunni 1. apríl síðastliðinn. Guðmundur lauk cand.mag.-prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 1982, MA-prófi í sagnfræði frá Cornell-háskóla árið 1985 og doktorsprófi frá sama skóla árið 1991. Sama ár hóf hann störf sem lektor í sagnfræði við Háskóla Íslands og fékk framgang í starf prófessors árið 2000.

Þannig 19. mars sl. skrifuðu Guðmundur Hálfdanarson og Ástráður Eysteinsson, forseti Hugvísindasviðs, undir samkomulag um að prófessorsstaða Jóns Sigurðssonar verði vistuð innan Hugvísindasviðs á meðan Guðmundur gegnir henni. Guðmundur heldur þeirri aðstöðu sem hann hefur haft á sviðinu og starfar áfram sem prófessor innan námsbrautar í sagnfræði og Sagnfræðistofnunar. En starfsskyldum hinnar nýju stöðu verður jafnframt sinnt í samstarfi við aðila á Vestfjörðum, m.a. Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum og Háskólasetur Vestfjarða. Fæðingarstaður Jóns Sigurðssonar, Hrafnseyri við Arnarfjörð, verður einnig vettvangur þeirra starfa Guðmundar sem tengjast munu Vestfjörðum. Guðmundur hefur metnað til að efla til muna tengsl Vestfjarða og Háskóla Íslands, ekki aðeins fyrir hönd Hugvísindasviðs heldur allra fræðasviða skólans.

Guðmundur Hálfdanarson hefur átt sérlega farsælan feril sem kennari og rannsóknamaður við Háskóla Íslands. Hann er afkastamikill fræðimaður, manna ötulastur í alþjóðasamstarfi og hefur jafnframt verið í fararbroddi þeirra sem byggt hafa upp doktorsnám í hugvísindum við skólann. Hann er afar vel að hinni nýju stöðu kominn og Hugvísindasviði er sómi að því að hinn nýi starfsvettvangur hans verði innan vébanda sviðsins. Guðmundur segir mikinn heiður að vera valinn til að gegna prófessorsstarfi sem ber nafn Jóns Sigurðssonar:

„Jón Sigurðsson er mér hugleikinn enda gegnir hann lykilhlutverki í sögu íslenskrar sjálfstæðisbaráttu og mótun íslenskrar þjóðernisvitundar sem hafa verið helstu viðfangsefni rannsókna minna um langa hríð. Þar sem hér er um nýjung að ræða í starfsemi Háskóla Íslands verður ögrandi verkefni að þróa starfið í samvinnu við heimamenn á Vestfjörðum og starfsfólk Háskóla Íslands.“